Vefurinn hefur þann tilgang að styðja kennara og kennaranema við innleiðingu kortagerðar sem námstækni í skólastarfi. Markmiðið er að veita góð ráð um kennslu, framvindu og mat.
Hugræn kortagerð er tækni sem felur í sér að skrá þekkingu á myndrænan og rökréttan hátt. Yfirleitt fela kortin í sér skýringar- eða útlínumyndir og merkingarlegt inntak. Með kortagerðinni er reynt að lýsa tengslum efnis, hugmynda eða hugtaka á rökréttan og myndrænan hátt. Kort geta verið yrt eða óyrt, tákn eða myndir - geta falið í sér orð, hugtök, setningar, myndir og tákn og hugræna kortagerð má nýta á árangursríkan hátt í námi og kennslu (Fisher, 2005; Hattie, 2009; Nesbit og Adesope, 2006). Vegna þess hve kort eru gagnsæ reynist kennurum auðvelt að greina og vinna með skilning nemenda á námsefni, dýpka hann og leiðrétta misskilning sem kemur upp. Kortin sýna glöggt skilning nemenda á námsefni og kortagerðin sjálf er námsferli. Nemandinn lærir þegar hann kortleggur.
|
Helsti styrkur hugrænna korta, einkum hugtakakorta, liggur í möguleikum nemenda til að hugtakamynda, flokka og vinna með hugtök og tengsl þeirra innbyrðis. Einnig er hin sýnilega framsetning mikilvæg vegna þess að nemendur geta séð hvernig hugmyndir tengjast innbyrðis og hvernig þær mynda heildarmynd.
|